Fullorðnir

Munnþurrkur

Orsakir munnþurrks geta verið margvíslegar s.s. ójafnvægi í vatnsbúskap líkamans, aukaverkanir í kjölfar lyfjatöku (t.d. geðlyfja) eða sjúkdómar í munnvatnskirtlunum sjálfum. Vandamál tengd munnþurrki aukast þegar aldurinn færist yfir en munnþurrkur er oft talinn einn af fylgifiskum öldrunar.

Góð munnhirða er alltaf mikilvæg en hún er ennþá mikilvægari ef munnþurrkur er til staðar auk þess sem huga verður vel að mataræði. Tannburstun er einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að fjarlægja sýkla og matarleyfar af tönnum. Mælt er með því að nota mjúkan tannbursta sem endurnýja þarf reglulega og flúortannkrem. Framleidd eru “háskammta-fúor”- tannkrem og unnið er að því að bæta aðgengi almennigs að slíkum tannkremum. Mikilvægt er að hreinsa milli tannanna með tannþræði einu sinni á dag og nauðsynlegt er að beita lagni til að særa ekki viðkvæmt tannholdið.

Til að örva munnvatnsframleiðslu er mælt með því að tyggja sykurlaust tyggjó, sem einnig fæst flúorbætt í lyfjabúðum.  Einnig eru á boðstólnum sykurlausar, munnvatnsörvandi bragðtöflur – en illa hefur gengið að koma þeim flúorbættum í lausasölu hér á landi.  Mælt er með því að borða mat sem þarf að tyggja og það er góð tannvernd að ljúka máltíð á ostbita.

Til að “vökva” munninn er mikilvægt er að drekka mikið af vatni og skola munninn oft með volgu vatni, ekki ísvatni.  Einnig er ráðlagt að nota svokallað “gervimunnvatn” sem fæst í lyfjabúðum, auk þess sem þar er að finna ýmis önnur hjálparefni við munnþurrki s.s. sprey og gel – sem mælt er með að smyrja á munnslímhúð t.d. fyrir svefn til að tungan límist síður við góminn.  Umrædd efni draga einnig úr óþægindum í slímhúð undir gervitönnum. Gott er að hafa í huga að mýkja varir með varasalva eða vaselíni.

Aldrei ætti að nota sætindi til að lina munnþurrk. Gosdrykkir og ávaxtadrykkir, sætt tyggigúmmí, brjóstsykur og annað sælgæti  veldur tannskemmdum á undrahröðum tíma. Ráðlagt er að takmarka neyslu á koffíni og alkóhóli .

Sérstök ástæða er til að vera í reglulegu eftirliti hjá tannlækni ef breyting hefur orðið á munnvatnsframleiðslu svo viðhalda megi heilbrigðu ástandi í munnholi. Leitið ráða hjá tannlæknum og starfsfólki lyfjabúða varðandi ýmis hjálparefni sem eru í boði á lyfjabúðum til að milda einkenni munnþurrks.