Foreldrar

Tanntaka og tannhirða barna

 Verða börn veik þegar þau taka tennur? 

Margir foreldrar tengja saman hita og slappleika hjá börnum þegar þau eru í tanntöku. Það er ekki talið að tanntakan sem slík valdi því. Við vitum að börn á aldrinum eins til eins og hálfs árs eru næm fyrir sýkingum og fá gjarnan hita og verða slöpp. Hins vegar er ekki hægt að útiloka örlitla sýkingu í slímhimnu munns þegar tönnin er að brjótast í gegn, sem svo getur valdið hita í skamman tíma. Þetta krefst ekki annarrar meðhöndlunar sérfræðings heldur þess sem í þessu tilfelli er besta meðalið: nálægðar foreldra og þolinmæði.

Klæjar börn þegar tennur koma upp?
Margir foreldrar grípa til þess ráðs að gefa börnum sínum eitthvað að naga meðan tennur eru að koma. Bithringur úr gúmmíi minnkar kláða í tannholdinu. Einnig er hægt að kaupa án lyfseðils gel sem borið er á. Áhrif þess vara stuttan tíma.

Hvenær koma fyrstu tennurnar?
Börn fá fyrst tennur u.þ.b. 7 mánaða gömul. Það er þó mjög mismunandi eftir einstaklingum. Það er að sumu leyti háð erfðum. Frávikið getur verið mjög stórt.

Hvaða tennur koma fyrst?
Oftast eru það miðframtennur í neðri gómi sem fyrst koma, síðan samsvarandi tennur í efri. Því næst koma hliðarframtennur, fyrst í neðri gómi og svo í þeim efri.

Hversu margar eru barnatennurnar?
Við höfum 20 barnatennur. Í hvorum kjálka eru 4 framtennur, 2 augntennur og 4 jaxlar.

Hvenær lýkur barnatanntöku?
Henni lýkur vanalega um þriggja ára aldur. Það eru öftustu jaxlarnir sem koma síðastir.

Hvenær detta barnatennurnar?
Það er mismunandi eftir tönnum og einstaklingum. Um 6 ára aldur fara fyrstu framtennur að losna og fullorðinsframtennur koma í ljós. Nokkur tími getur liðið frá því að tönn dettur þar til fullorðinstönnin kemur í ljós. Það er ekki alltaf mikið pláss fyrir fullorðinstennurnar. Þær eru talsvert stærri en barnatennurnar en oft jafnar það sig þegar barnið vex.

Geta snuðnotkun og fingursog haft áhrif á vöxt kjálkans?
Já, snuðnotkun og fingursog geta haft áhrif á þroska kjálkans og tennur vegna þrýstings sem þau valda. Þannig þrýstist efri kjálki fram en neðri kjálki inn. Þetta getur valdið svokölluðu krossbiti á jöxlum en þá er efri gómurinn þrengri en sá neðri. Einnig getur myndast svokallað opið bit, sem er milli framtanna þegar barnið bítur saman jöxlum. Þá passar gjarnan fingurinn eða snuðið fullkomlega í bilið sem myndast. Aðrar sogvenjur s.s. klútur og fleira þess háttar geta valdið sömu birskekkjum. Áhrifin eru því mun meiri ef notkunin er stöðug. Fingursog telst almennt verra en snuðsog.

Hvað geta foreldrarnir gert?
Foreldrar verða að venja barn sitt af þessu áður en fjögurra ára aldri er náð. Börn öðlast öryggistilfinningu við snuðnotkun, en þegar börn eru orðin þriggja til fjögurra ára gömul er þetta ekki eins mikilvægur þáttur og áður. Þá telst notkunin fremur ávani sem foreldrar verða að hjálpa þeim að venja sig af.

Er nauðsynlegt að meðhöndla bitskekkjur?
Opið bit lagast oft af sjálfu sér sé snuðnotkun og eða fingursogi hætt í tíma; það er fyrir fjögurra ára aldur. Krossbit þarf oftar að laga og má gera með einfaldri þanplötu eða skrúfu. Yfirleitt er það gert þegar barnið verður eldra. Sé snuðnotkun eða fingursogi ekki hætt nógu snemma, þarf í sumum tilfellum að rétta tennur með föstum tækjum og jafnvel aðgerðum.

Getur pelagjöf valdið tannskemmdum?
Já, pelagjöf getur valdið tannskemmdum þrátt fyrir að aðeins fáar tennur séu í munninum. Það er innihald pelans sem veldur tannskemmdinni. Því er mikilvægt að forðast drykki sem innihalda sykur. Það er einnig slæmt að setja hunang eða annað sætt á snuð. Það skemmir tennur á aðeins nokkrum mánuðum.

Er slæmt að gefa barninu pela þegar það vaknar upp á nóttunni?
Ef börnum er gefinn peli að nóttu til, ætti hann aldrei að innihalda neitt annað en vatn. Það er ekki æskilegt að fá börnum pelann, heldur á alltaf að halda á barni sem fær pela. Athugið að mjólk í pela getur skemmt tennur; sérstaklega ef hún er drukkin á nóttunni.

 

Af hverju er verra að drekka á nóttunni?
Á nóttunni er munnvatnsframleiðslan í lágmarki og því þarf aðeins lítið magn sykurs fyrir bakteríurnar svo þær geti myndað sýru. Tungan og kinnin eru í hvíld og hjálpa því heldur ekki til við hreinsun munnhols eins og að degi til.

Geta tennur þá skemmst um leið og þær koma upp?
Já, í raun og veru skemmast þær um leið og þær koma upp ef neyslumunstrið er með þessum hætti. Tannlæknar sjá oft eins til tveggja ára gömul börn með stórar holur í framtönnum vegna pelagjafa að nóttu til.

Hvað geta foreldrar gert ef þeir hafa grun um tannskemmdir af þessu tagi?
Ef grunur vaknar um tannskemmdir hjá svo ungum börnum, á að hafa samband við tannlækni við fyrsta tækifæri. Ekki er alltaf um tannskemmdir að ræða, en það er þó algengara en fólk grunar. Ef venja þarf barnið af pela er gott að þynna innihaldið smám saman þar til aðeins vatn er eftir. Ef barnið er vant því að fá sykraðan safa, á umsvifalaust að skipta yfir í sykurlausan safa. Gott er að fá ráðleggingar hjá tannlækni.

Hvenær á að hefja tannburstun?
Dagleg tannhreinsun er nauðsynleg og þarf að hefjast um leið og fyrsta tönnin kemur upp; við um það bil 6 mánaða aldur. Áður er æskilegt að hreinsa og nudda góm barnsins með rökum klút.

Hvernig á að bursta?
Þegar barnið verður eldra og fær jaxla, burstum við með rólegri láréttri hreyfingu, sem hreinsar tvær til þrjár tennur í einu. Gott er að skipuleggja burstunina þannig að byrjað sé til dæmis uppi hægra megin og færa sig yfir til vinstri. Byrja svo vinstra megin niðri og færa sig rólega til hægri. Aldrei má gleyma bitflötum tanna svo og þeirri hlið sem snýr inn, það er að tungunni.

Hve lengi á að bursta?
Tilgangur tannburstunar er að gera alla fleti tannarinnar hreina. Það tekur nokkrar mínútur.

Eiga börn að nota tannkrem?
Já en einungis tannkrem ætlað börnum. Venjulegt tannkrem er of sterkt. Einnig er mikilvægt að foreldrar stjórni því hversu mikið magn fer á burstann. Alngengt er að börnum finnist tannkrem gott á bragðið og kyngja því gjarnan. Það er ekki æskilegt nema í litlu magni. Notaðu það magn tannkrems sem svara til stærðar naglarinnar á litla fingri barnsins. Mikilvægt er að nota flúortannkrem, því flúor hindrar myndun tannskemmda.

Hvenær getur barnið burstað sjálft?
Börn geta ekki séð um tannburstun sjálf fyrr en um 10-12 ára aldur. Þegar 10 ára aldri er náð getur verið gott að leyfa barninu að bursta sjálft, en undir eftirliti foreldranna. Til eru litatöflur sem geta hjálpað. Yngri börn vilja oft bursta sig sjálf og það leyfum við þeim með því skilyrði að fá að bursta sjálf á eftir. Frá þriggja ára aldri er nauðsynlegt að bursta alltaf tvisvar á dag. Foreldrarnir bera ábyrgð á burstuninni en barnið má gjarnan prófa sig áfram.

Eiga börn að nota tannþráð?
Já, ef ekki eru bil á milli tannanna er nauðsynlegt að nota tannþráð. Til eru tannþræðir festir á tannstöngul, sem sumu hentar betur að nota. Ráðfærðu þig við tannlækninn þinn.

Flúor
Flúor er áhrifaríkasta efnið sem nú er notað í baráttunni við Karíus og Baktus. Flúor gengur inn í glerung tannanna og eykur viðnám hans gegn tannskemmdum. Flúor hemur einnig virkni baktería.

Hvað með flúorbætt drykkjarvatn?
Hér á landi er drykkjarvatn ekki flúorbætt. Því er oft gott að bæta við flúorgjöf með inntöku flúorskols. Athugið að því á ekki að kyngja.

Þurfa ung börn flúor?
Ef ungabörn, sem ekki eru í áhættu fyrir tannskemmdum, eru burstuð tvisvar á dag með flúortannkremi, ætti það að duga í flestum tilvikum.

Flúortöflur - eru þær nauðsynlegar?
Þær geta komið að miku gagni, sérstaklega fyrir þau börn sem eru í áhættu hvað varðar tannskemmdir. Tannlæknir ætti alltaf að ráðleggja notkun flúortaflna. Flúorsogtöflur geta einnig verið mjög góðar fyrir eldra fólk.

Hvað á ég að gera ef barnið mitt gleypir mikið magn af flúortöflum?
Ef börn innbyrða meira en 2 mg per kíló; þ.e. barn sem er 15 kíló gleypir meira en 60 núll komma fimm milligramma töflur, á að byrja á því að gefa barninu mjólk að drekka og reyna að framkalla uppköst. Alltaf ber að hafa samband við lækni, ef grunur leikur á um að of mikið hafi verið innbyrt. Helstu einkenni eitrunar af völdum of mikillar neyslu flúors eru ógleði, sviti, magaverkir, þorsti, þreyta og í versta falli krampar.

Mega börn nota flúorskol?
Varast ber að gefa mjög ungum börnum flúorskol, helst ekki þeim sem eru yngri en 7 ára. Þá er of mikil hætta á að barnið kyngi of miklu magni af flúor. Flúorskol getur hins vegar gert mikið gagn hjá eldri einstaklingum; sérstaklega þeim sem eru í áhættu varðandi tannskemmdir. Flúorskol fást í lyfjabúðum.

Gerir flúorlökkun hjá tannlæknir gagn?
Já, flúorlakk er mikilvægt hjálpartæki í baráttunni gegn tannskemmdum. Þegar tannskemmd er að myndast, er mögulegt að grípa inn í það ferli með flúorlökkun.

Hefur mataræði áhrif á tannheilsuna?
Já mataræði og matarvenjur hafa veruleg áhrif á tannheilsu. Það á sérstaklega við þegar tennurnar eru komnar í munnholið.

 

Hvaða næringarefni skemma tennur?
Í venjulegu mataræði er það fyrst og fremst sykur sem skemmir tennur. Bakteríur í munninum umbreyta sykrinum í sýru, sem svo leysir upp glerunginn. Sýrurárásin hefst nokkrum mínútum eftir neyslu sykursins.

Eigum við þá ekki að borða sykur?
Það væri jú æskilegast, en er óraunhæft markmið. Skynsamlegast er að forðast sykurneyslu á milli mála.

Er einhver fæða óhollari en önnur fyrir tennurnar?
Klístraður og sykurríkur matur er verstur, því hann situr lengi á tönnum og skemmir þær. Einnig eru sætir drykkir - gos og safar - óhollir tönnum þar sem þeirra er neytt í langan tíma í einu. Því eru tennurnar í stöðugu sykurbaði. Sama gildir um flestar sælgætistöflur. Þær sem hægt er að fá sykurlausar eða með sætuefninu Xylitol eru miklu betri fyrir tennurnar. Mikilvægt er fyrir foreldra að átta sig á því að tennur sem eru nýkomnar í munnholið skemmast hraðar en þær sem staðið hafa þar lengur. Því er sérstaklega mikilvægt að gefa börnum ekki sykraða safa á pela eða aðra sykraða drykki fyrstu árin. Einnig er mjög slæmt ef börn fá hunang eða eitthvað annað sætt á snuðið.

Hvað með laugardagsnammi?
Það er góð regla að safna sælgæti vikunnar saman og neyta á laugardögum. Það skiptir minna máli hversu mikils sykurs er neytt, heldur en hve oft hans er neytt. Því er æskilegra að borða allan skammtinn í einu en að dreifa honum á alla daga vikunnar. Forðast skal í lengstu lög börn neyti sælgætis á hverjum degi.

Hvað geta foreldrar gert til að kenna börnum sínum góða siði varðandi mataræði?
Mataræði og matarvenjur fullorðinna móta venjur barnanna. Þeir eru fyrst og fremst ábyrgir og ættu því að sýna gott fordæmi. Þeir ættu að gæta þess að börnin borði ALLTAF morgunmat, áður en haldið er til skóla. Sé barnið svangt milli mála er hollara að gefa því ávöxt eða grænmeti í stað kexköku. Venjum börnin á að drekka vatn eða mjólk í stað safa.


Hvenær á barnið fyrst að fara til tannlæknis?
Í raun eru börn aldrei of ung til að fara í skoðun til tannlæknis. Ef foreldrar hafa áhyggjur varðandi tennur barna sinna er skynsamlegt að leita til tannlæknis. Hann getur gefið góð ráð og fyrirbyggt ýmis vandamál. Börn sem náð hafa fjögurra ára aldri eiga öll að hafa komið til tannlæknis. Það er nauðsynlegt að venja börn á reglulegt eftirlit hjá tannlækni; þá myndast traust og líkurnar á að tennur barnsins verði heilbrigðari aukast.

Hve oft eiga börn að koma til tannlæknis á ári hverju?
Það er einstaklingsbundið og fer eftir ýmsu. Auk þess að athuga hugsanlegar tannskemmdir skoðar tannlæknirinn einnig bit og fleira. Séu börn í sérstakri áhættu fyrir tannskemmdum er nauðsynlegt að kalla þau inn oftar og flúorbera tennur, jafnvel 4 sinnum á ári. Algengast er að kalla börnin til skoðunar tvisvar á ári, en einstaka börn koma einu sinni á ári.

Hvernig er best að undirbúa barnið fyrir fyrstu tannlæknaheimsóknina?
Það að fara til tannlæknis á að vera jafn eðlilegt og að fara í klippingu eða sund. Við skulum ekki hræða börnin að óþörfu með því að segja þeim að ,,þetta verði nú ekkert vont" eða ,,að þetta sé ekki hættulegt". Slíkar athugasemdir vekja grunsemdir hjá barninu um að ekki sé allt með felldu. Því miður eru sumir foreldrar smeykir við að fara til tannlæknis og börn eru fljót að skynja líðan foreldra sinna. Þá er jafnvel æskilegra að einhver annar fylgi barninu.

Allir foreldrar vita að börn þarf að umgangast af nærgætni og leiða þau í gegnum hvert stig tannskoðunarinnar til að fyrirbyggja að þau verði hrædd. Þetta er meðal annars kennt í námi í barnatannlækningum. Í fyrstu heimsókn er lagður grunnur að trúnaðarsambandi milli tannlæknis og barns. Þá kynnist barnið umhverfinu, sem í fyrstu er framandi, og lærir jafnvel á tækin og fær að prófa. Þetta er oft mjög spennandi og skemmtileg upplifun fyrir barnið. Við skulum minnast þess, að ef vel tekst til í fyrstu tannlæknaheimsóknum barnsins, mun það verða afslappað í tannlæknastól síðar.

Hvað er gert í reglulegri heimsókn hjá tannlækni?
Tennur og munnhol er skoðað. Oft eru teknar 2 röntgenmyndir. Sjúklingurinn og/eða forráðamaður hans er fræddur og þeim gefin góð ráð um það sem betur mætti fara. Þetta getur varðað mataræði, tannhreinsun og fleiri þætti. Þegar barnið kemst á unglingsár beinist fræðslan einnig að sýrueyðingu og áhrifum tóbaks á tennur og tannhold.

Hvað eiga foreldrar að gera ef þeir hafa áhyggjur að því að eitthvað sé að?
Ef um tannáverka eða slys er að ræða á alltaf að hafa samband við tannlækni. Stundum er ekkert gert í slíkum tilvikum, en oft þarf að grípa til aðgerða til að skaðinn verði ekki meiri en orðið er. Hafi foreldrar aftur á móti áhyggjur af skökkum tönnum, tannskemmdum eða því um líku, er sjálfsagt að panta tíma hjá tannlækni.