Tannviðgerðir

Tannfyllingarefni

 Hvaða fyllingarefni notar tannlæknirinn?
Í nálega tvær aldir hefur silfurblendi, einnig kallað silfuramalgam, sem er blanda silfurs, tins og kvikasilfurs auk nokkurra annarra efna, svo sem kopars, verið notað sem fyllingarefni í tennur. Frakkinn Taveau kynnti efni sitt, Pâte d´Argent árið 1826 og um sama leyti var farið að nota svokallað Bell's Putty í Bretlandi. Samanborið við önnur tannfyllingarefni er silfurblendi tiltölulega auðvelt í notkun og því unnt að fylla með því tennur án óhóflegs kostnaðar. Langt fram eftir siðustu öld var silfurblendi lang algengasta fyllingarefnið. Silfurblendi - Amalgam
Á síðustu árum hefur þó dregið mikið úr notkun þessa fyllingaefnis. Helstu ástæður fyrir minnkandi notkun er sú umræða sem farið hefur fram um eitur- og mengunaráhrif kvikasilfurs. Annars staðar á Norðurlöndum er silfurblendi ekki sett lengur í tennur barna, unglinga og þungaðra kvenna. Þar er stefnt að því að banna notkun þess þegar fundin verða önnur efni sem geta komið í staðinn. Sú leit hefur reyndar gengið hægar en vænst var.

Ókostur silfurblendis - amalgams
Þrátt fyrir fjölmargar rannsóknir er ekkert sem bendir til þess að silfurblendi sé skaðlegt heilsu manna nema hjá þeim sem hafa ofnæmi fyrir efninu. Ofnæmi fyrir silfurblendi er afar fátítt. Það er ekki ætlunin hér að bæta í umræðuna um hugsanleg skaðleg áhrif kvikasilfurs á menn og umhverfi. Tannlæknafélag Íslands sendi ráðherra heilbrigðismála bréf hinn 1. desember 1999 og benti þar á óumdeildan ókost silfuramalgamfyllinga. Hann er sá, að til þess að fá festu fyrir þessa gerð fyllinga þarf að bora burt heilbrigðan glerung og heilbrigt tannbein. Því þarf að tilsníða tönnina þannig að umfang holunnar, sem fylla á, sé meira í dýpt en á yfirborði. Á þann hátt einan fæst undirskurður eða geirnegling fyrir fyllinguna sem situr þá í tönninni eins og korktappi í kampavínsflösku. Við þennan tannskurð tapast oft stór hluti heilbrigðrar tannar þótt skemmdin sjálf hafi ekki verið mikil að umfangi í upphafi. Það má bæta því við að erfitt er að ná nægjanlegum undirskurði í barnajaxla og er því ending silfurfyllinga í þeim tönnum ekki góð. Stálkrónur verða því oft lausnin.

Nútíma fyllingaefni
Nútíma fyllingarefni, svo sem glerblendi og plastblendi, þurfa ekki undirskurð til að fá festu. Þau má líma í tönnina. Nóg er að fjarlægja skemmdina. Ekki þarf að bora burt heilbrigðan tannvef. Það getur verið tæknilega erfitt og tímafrekt að koma þessum efnum fyrir, en kostirnir eru ótvíræðir: Meira verður eftir af heilbrigðri tönn. Þörf fyrir rótfyllingar og krónur síðar á niðurbrotnum tönnum verður minni en ella.

Þegar samningur var gerður milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins þann 19. desember 1987 var notkun glerblendis og plastblendis enn á tilraunastigi. NIOM (Nordisk Institut for Odontologisk Materiaforskning) viðurkenndi þá þessi efni aðeins til notkunar í framtennur og í bitfleti forjaxla. TFÍ þótti því ekki við hæfi að fara fram á að stórar jaxlafyllingar gerðar úr glerblendi og plastblendi yrðu tekin inn í umsamda gjaldskrá. Samningurinn var endurnýjaður 15. apríl 1992 en þá féllst TR ekki á að taka inn neinar nýjungar í efnum og aðferðum. Með samkomulagi 15. nóvember 1994 var þó bætt inn 6 aðgerðarliðum í gjaldskrá varðandi glerblendis- og plastblendisfyllingar. TR samþykkti þó eingöngu litlar fyllingar í bitflötum jaxla.

Skjólstæðingar TR njóta ekki
þess besta sem völ er á
Það er skoðun TFÍ að vöntun gjaldliða fyrir meðalstórar og stórar (margflata) glerblendis og plastblendis-fyllinga í Ráðherragjaldskrá no 49 frá 20. janúar 1999 hindri það að skjólstæðingar TR fái notið viðunandi tannlækninga. TFÍ tók á árinu eftirfarandi liði í aðgerðaflokkun sína:

243 Bindiefni á tannbein
244 Plastefni til herðingar yfirborðs plastblendis
246 Plastblendi, tveggja flata - fylling hylur 2/5 hluta tannar
247 Plastblendi, þriggja flata - fylling hylur 3/5 hluta tannar
248 Plastblendi, fleiri en þrír fletir - fylling hylur meira en 3/5 hluta tannar
263 Glerblendi tveir fletir - fylling hylur 2/5 hluta tannar
264 Glerblendi þrír fletir - fylling hylur 3/5 hluta tannar
265 Glerblendi fleirri en þrír fletir - fylling hylur meira en 3/5 hluta tannar

Með áðurnefndu bréfi til heilbrigðisráðherra lét TFÍ þá ósk í ljós að ofangreindum aðgerðarliðum yrði bætt í ráðherragjaldskrá svo að skjólstæðingar TR fái notið endurgreiðslu á nútímalegum aðferðum í tannlækningum.

Plastblendi er tannlitað fyllingarefni sem er fyrst og fremst notað á framtannasvæði. Plastefnin má líma við glerunginn. Plastblendiði hefur ekki eins mikið slitþol og silfurblendið, en er engu að síður heppilegt til að nota framarlega í munninum, þar sem bitálag er ekki of mikið. Plastblendiði má einnig nota á jaxlasvæði ef skemmdin er ekki þeim mun stærri.

Glerblendi er önnur tegund tannlitaðra fyllingarefna. Glerblendi inniheldur flúor og límist við tannbein og glerung. Slitstyrkur glerblendis er ekki mikill og því er notkun þess ekki ráðlögð þegar bitálag er mikið.

Ertu til efni sem geta komið alfarið í stað silfurblendis?
Við höfum engin efni sem geta komið í staðinn fyrir silfurblendi ef kostnaður er hafður í huga. Plastiblendið hefur ekki eins mikinn styrk og slitnar frekar, þannig að það er ekki heppilegt nema skemmdin sé lítil. Gera má gull eða postulínsfyllingar í stað silfurblendis. Gull er óumdeilanlega besta fyllingarefni sem til er. Kostnaður við gerð gull og postulínsfyllinga er dýr kostur, mörgum sinnum meiri en við silfurblendi.